Það hentar flestum börnum að svefntímar þeirra séu þeir sömu alla daga vikunnar. Að barnið vakni á svipuðum tíma flesta morgna og fari að sofa á svipuðum tíma á kvöldin er það sem allir fræðimenn í svefni eru sammála um, og á það við um bæði börn og fullorðna. Mælt er með því að barn vaki hóflega, bæði fyrir daglúra, á milli daglúra og fyrir nóttina. Stundum er þessi vökutími kallaður vökugluggi eða wake window. Vökugluggar geta verið mjög einstaklingsbundnir og þeir þróast líka með aldrinum. Vökuþol barna eykst jafnt og þétt eftir því sem þau eldast. Oftast er fyrsti vökuglugginn á morgnana stystur og svo lengist vökuþol barns þegar líður á daginn og lengsti vökutíminn er oftast fyrir nóttina.
Það getur verið erfitt að finna út hæfilegan vökutíma eða vökuglugga fyrir barnið sitt. Hér ætla ég að birta leiðarvísi um vökuglugga barna eftir aldri sem henta mörgum. Hafðu samt í huga að þessi tafla er eingöngu til viðmiðunar og henta ekki öllum. Það er mikilvægt að lesa líka í þreytumerki barnsins og fylgja innsæinu sínu.
Aldur barns | Vökugluggi fyrir daglúr | Vökugluggi fyrir nætursvefn |
4 mánaða (3-4 daglúrar) | 1,5 klst | 2,5 klst |
6 mánaða (2-3 daglúrar) | 2 klst | 3-3,5 klst |
9 mánaða (2 daglúrar) | 2,5-3 klst | 4-5 klst |
12-18 mánaða (1 daglúr) | 4 klst | 5-6 klst |
Dægursveifla eða líkamsklukka barnsins hjálpar barninu að þekkja muninn á degi og nóttu og byrja áhrif hennar oft upp úr 4 mánaða aldri barns. Með því að hafa reglu á svefntímum barnsins yfir daginn og með því að búa til rútínu geta foreldrar ýtt undir og hjálpað barninu að skilja mun á degi og nóttu og þar með haft jákvæð áhrif á svefn barnsins.
Eins hafa rannsóknir sýnt fram á það að þegar svefntímar daglúra eru hæfilegir, hefur það jákvæð áhrif á nætursvefn og barn sefur betur á nóttunni.
Smábörn þurfa á daglúrum að halda og þessir daglúrar eru mikilvægir fyrir þeirra þroska og líðan. En stundum geta daglúrar haft neikvæð áhrif á nætursvefn. Ef að heildartími dagsvefns er óhóflega mikill þá getur það haft neikvæð áhrif á nætursvefn. Algengasta ástæðan er sú að daglúrinn sé tímasettur á óheppilegum tíma eða er óhóflega langur rétt fyrir nætursvefninn. Það er ágætt viðmið að heildar dagsvefn hjá barni milli 3 og 6 mánaða sé um 4-5 klst og heildar dagsvefn hjá barni 9-18 mánaða sé um 3 klst.
Fyrirvari : Ef barnið þitt sefur vel á daginn og á nóttunni og líður vel, þá þarftu alls ekki að breyta neinu, jafnvel þó að barnið "fitti" ekki inn í einhver viðmið um vökuglugga hjá mér eða öðrum. Njóttu þess :)
kveðja Kristín
Kommentare